149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka prýðisgóða yfirferð. En af því að við erum farin að velta vöngum yfir því hversu mikill afslátturinn kunni að vera í raun, þótt ekki væri nema í þessari umferð, þar sem eru um 83 milljarðar undir, ef ég man rétt, þá finnst mér liggja beinast við að rifja upp umræðuna sem var í byrjun árs 2016 þar sem kom m.a. fram í ágætri og mikilli grein sem Hörður Ægisson blaðamaður skrifaði, að stjórnvöld myndu ekki telja unnt að sætta sig við minni afföll í þessum útboðum en 30–40%, ekki minna en það. Það kemur í sjálfu sér heim og saman við fyrstu tilraun Seðlabankans þegar hann fer af stað í júní og lætur þau boð út ganga að besta verðið sem menn geti fengið að kaupa evrur á sé á 190 kr., það fari ekki lægra en það. En á þeim tíma var skráð gengi evrunnar í kringum 138 kr. Svoleiðis að þar er gert ráð fyrir u.þ.b. 38% álagi.

Ef við styddumst við það í tilviki þessara 83 milljarða, bara þessara 83 milljarða sem eftir eru, þá sýnist mér fljótt á litið að þetta sé spurning um hvort Landsbankinn ætlar að selja vogunarsjóðunum fyrir 83 milljarða sem nema 605 milljónum evra, eða 436 milljónum evra. Þarna munar hátt í 200 milljónum evra bara í þessari umferð. Það væri hægt að gera ýmislegt af því sem hv. þingmaður kallaði eftir áðan fyrir það.