149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist svona fljótt á litið að þó að þeir sem hafa setið lengst eftir, eftirlegukindurnar, sem neituðu að taka þátt í öllu, fengju það verð sem þeir sem þó voru tilbúnir til að vera með í fyrstu umferð, að þeir fengju jafn gott verð og þeir, þá megi reikna með því að eftirgjöfin í þessari umferð sé um 23 milljarðar.

En af því að hv. þingmaður nefndi einmitt Landspítala – háskólasjúkrahús finnst mér við hæfi að rifja það upp að samkvæmt stefnu vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013 voru þeir sem sátu fastir með aflandskrónur fóðraðir mjög vel á vöxtum og fengu að flytja þá út úr höftunum. Og þær vaxtagreiðslur námu — þegar ný áætlun var kynnt höfðu safnast upp vaxtagreiðslur, útteknar, upp á 70 milljarða kr., eða sem nemur eins og einum nýjum Landspítala.