149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég vil aðeins fá álit hv. þingmanns á því sem segir á bls. 8 í greinargerðinni. Talað er um áhrif á Seðlabankann og gjaldeyrismarkað og segir að áhrif breytinga á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum á gjaldeyrismarkað muni ráðast af því hve stór hluti núverandi aflandskrónueigenda ákveður að skipta umræddum eignum í erlendan gjaldeyri og á hve löngu tímabili viðskiptin eiga sér stað.

Rétt er að benda á að ósamræmis gætir í textanum vegna þess að á bls. 7 segir:

„Gera má ráð fyrir því að aflandskrónueigendur sem geta nýtt sér heimild samkvæmt 2. og 3. tölulið 1. gr. frumvarpsins muni nýta sér þær fljótlega eftir að lögin taka gildi eða þegar þeim verður kunnugt um aukinn rétt sinn til úttektar.“

Hér er látið að því liggja að slíkum eignum verði skipt fljótlega út en síðan er talað um að óvíst sé á hve löngu tímabili.

En þetta var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann að. Það er ljóst að þetta kemur til með að hafa áhrif á gengið en á bls. 8 segir: „Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.“

Hv. þingmaður er í velferðarnefnd. Er ekki rétt skilið hjá mér að þetta geti haft mikil áhrif á ríkissjóð, t.d. hvað varðar lyfjakaup (Forseti hringir.) sem eru í erlendum gjaldeyri? Það hlýtur að hafa áhrif á ríkissjóð.