149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er náttúrlega þannig að þegar við berjum okkur á brjóst og segjum að okkur verði ekki haggað, þegar við segjum að við séum búin að finna leið — það er í raun sama um hvað við ræðum og við höfum lögin með okkur, við höfum réttinn með okkur — ef menn kikna síðan í hnjánum við þrýsting eða einhvers konar hótanir eða hvað menn kalla það, gefa eftir, getur það að sjálfsögðu haft áhrif á orðsporið og hver trúverðugleiki okkar er út á við.

Það er alveg ljóst að þegar við settum neyðarlögin, þegar að við höfnuðum Icesave, þrátt fyrir að allt væri gert til að reyna að troða því ofan í kokið á okkur, þegar við settum á þetta plan um losun fjármagnshafta var ljóst að við öðluðumst ákveðna virðingu fyrir það í heimi þjóðanna. Menn litu til Íslands og sögðu: Bíddu við, hvernig gátu þið þetta? Þegar við bentum á að lögin og rétturinn, réttur þjóðríkisins til að bregðast við, til að gera þetta, hefði verið okkar megin, vakti það að sjálfsögðu athygli.

Ég leyfi mér að segja það að ég held að þau viðbrögð, það sem við gerðum á Íslandi, hafi blásið mörgum stjórnmálamanninum, t.d. í Evrópu, ákveðinn baráttuanda í brjóst. Menn sáu að þeir þyrftu ekki endilega að láta fjármagnseigendur, vogunarsjóði, alþjóðastofnanir stjórna sér. Menn gátu sjálfir tekið ákvarðanir ef þeir höfðu bara kjark til þess, beittu fyrir sig rökum og lögum, ekki bara landslögum heldur líka alþjóðlegum lögum. Það höfum við séð í þeim málum sem ég nefndi.