149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott og athyglisvert svar. Hann talar náttúrlega af mikilli reynslu hvað þetta varðar. Það er einmitt það sem við eigum að hlusta eftir, þeim sem hafa reynslu í þessum efnum. Mér þótti það mjög athyglisvert hjá hv. þingmanni þegar hann nefndi í ræðu sinni að það hafi einmitt verið eftir því tekið á erlendum vettvangi, þar sem hann var við störf, hversu vel við tókum á þessu máli varðandi fjármagnshöftin og samskiptin við kröfuhafana og vogunarsjóðina o.s.frv. Þannig að orðstír okkar var góður hvað þetta varðar.

Svo nefndi hv. þingmaður einnig Icesave. Þar er ég svo sannarlega sammála honum, orðstír okkar fyrir staðfestu og það að halda rétti okkar er mjög góður. Það er sorglegt en ég held nefnilega að þetta mál einmitt sé til þess fallið að draga úr þeim góða orðstír sem við höfum byggt upp hvað þetta varðar.