149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir prýðisræðu. Það sem mig langar til að heyra afstöðu þingmannsins gagnvart, hafandi verið ráðherra sjálfur, fyrst utanríkisráðherra, síðan landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, er að það hefur vakið nokkra athygli og umræðu þessi tímasetning, þessi tímapressa sem málið er sett í í dag. Slíkt er sett í greinargerð og nefndarálit sem er afgreitt úr nefnd sl. fimmtudag. En síðan nefndarálitið var afgreitt hefur þing ekki komið saman fyrr en í dag. Umræður um málið hófust kl. 15:03, markaðir með skuldabréf loka 15:30 og því er lýst í nefndarálitinu sem meginrökstuðningi fyrir þessari tímapressu, að hér verði allt í hers höndum ef málið klárist ekki í dag. Fyrir utan það undarlega í nefndarálitinu það sem haft er eftir Seðlabankanum, sem segir nú reyndar að allt verði í hers höndum ef málið verði ekki klárað fyrir daginn í dag.

Mér vitanlega gerðist ekkert á mörkuðum í dag sem markvert er fyrir utan hefðbundnar sveiflur. Hvernig slær þetta hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson? Hvers vegna telur hann ríkisstjórnina fara fram með þessum hætti? Því að nú er auðvitað óumdeilt að ríkisstjórnin og hæstv. forseti hafa fullt vald á því hvenær málið hefði komið hingað inn og hefði þá verið flötur á því að taka sér rýmri tíma til umfjöllunar heldur en að taka það á dagskrá raunverulega eftir að allt átti að vera orðið í hers höndum samkvæmt greinargerð Seðlabankans.