149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þegar við kynntum þetta mikla plagg, losun fjármagnshafta, var alveg ljóst að við ætluðum að beita fullri hörku í að gæta hagsmuna Íslands. Eftir því var tekið í framhaldinu þegar farið var að hrinda þessu plaggi, þessari áætlun í framkvæmd. Við gerðum það og stóðum við það. Það varð til þess að trúin á Ísland, trúin á það að við myndum ná okkur aftur á strik að fullu, jókst verulega. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Eftir að menn sáu hvað eftir annað að reynt var að troða í gegnum Alþingi eða ofan í þingmenn eða þjóðina, samningum sem voru vondir og voru í rauninni gerðir til að þóknast peningaeigendum og alþjóðastofnunum, sáu menn að við gátum farið aðra leið og við það jókst, að mínu viti, traustið á Ísland. Það var alveg sama hvar maður kom, eftir því var tekið og þá var maður spurður út í hvernig það væri hægt.