149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er vitanlega erfitt að gera sér fullkomlega grein fyrir því hvers vegna þeirri áætlun var ekki haldið áfram sem búið var að setja af stað og samþykkja. Helst dettur manni í hug, og ég hef það á tilfinningunni, að áhuginn eða skilningurinn á mikilvægi málsins hafi ekki verið jafn sterkt til staðar. Þó er ljóst að það voru vissulega margir sem vildu halda þessu plani áfram, en það var líka ljóst að það voru margir hagsmunaaðilar sem sáu ákveðin tækifæri í því þegar breytingin varð um vorið eða um mitt ár 2016, að ná fram ákveðnum breytingum á afstöðu stjórnvalda. Því held ég að lobbíistarnir á vegum vogunarsjóðanna, á vegum þeirra sem áttu þessar eignir, hafi unnið gott starf, þeir hafi smám saman náð að hola steininn, sem gerði það að verkum að á endanum fóru menn í viðræður við hluta af þessum aðilum, eða við þessa aðila, um hvernig ljúka mætti þessu máli með þeim hætti sem þóknaðist eigendunum enn frekar.

Ég endurtek, og það er svar mitt við seinni spurningu þingmannsins: Að mínu viti er alveg ljóst að það felst í því ákveðin orðsporsáhætta þegar í ljós kemur og menn frétta að menn höfðu ekki þrek í að standa þetta af sér allan tímann heldur létu hörkuna ganga yfir ákveðinn hluta fram á mitt ár 2016 eða rúmlega það, en fóru svo í það að semja af sér eða gefa eftir gagnvart öðrum. Það dregur úr trúverðugleika.