149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[19:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf vandasamt að nefna tölur. Það byggir á þeim forsendum sem gefnar eru hvaða tölur við notum. Komið hefur fram í ræðustól hjá öðrum þingmönnum að þetta geti verið 8 eða 11 milljarðar, eða jafnvel upp í 20–25 milljarðar eftir því hvað við hvað maður miðar, hvenær það var sem menn byrjuðu að gefa eftir, hvenær menn léðu máls á því að verðlauna þennan hluta vogunarsjóða sem voru þrautseigir og sátu hér og biðu. Það fer eftir því hvaða viðmið við setjum á það, hvert tapið er eða hvað það er sem við missum af í fjármunum talið er mikið. Það er líka eitt sem hefði verið ágætt að fá að ræða hér við fulltrúa og þá þingmenn sem ætla að samþykkja þetta mál.