149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

lengd þingfundar.

[19:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er merkilegt hvað forseta og fleirum, að því er virðist, virðist mikið í mun að klára sem fyrst þetta mál, sérstaklega í ljósi þess að í áliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að Seðlabankinn hafi eiginlega mælst til þess að þetta mál yrði klárað í síðasta lagi í gær, þ.e. áður en dagurinn í dag rynni upp, eins og það var einhvern veginn orðað, vegna einhvers skuldabréfs sem var greitt út fyrr í dag, væntanlega áður en umræða um þetta mál yfir höfuð hófst.

Nú þegar ljóst er að ekki náðist að ræða þetta í gær, enda þingfundi gærdagsins frestað, er merkilegt að forseta liggi enn þá á en ég fagna þó alveg sérstaklega að forseti skuli hafa kallað út allt sitt mikla lið úr sínum sjö flokkum og að menn séu mættir til að greiða atkvæði og vonandi taka þá sem mestan þátt í umræðunni fram undan því að þetta er mikilvæg umræða.