149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:06]
Horfa

Einar Kárason (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í ræðum hv. Miðflokksmanna í eftirmiðdaginn hef ég verið einn af þeim sem hefur fylgst með málinu og verið viðloðandi þingsalinn. Ég verð að játa, af því að ég er dálítill græningi hér, að ég fór mjög fljótlega að reyna að átta mig á því hver væri kjarni málsins, um hvað við værum að tala. Framan af skildist mér, og kom fram bæði í ræðum og andsvörum, að það snerist dálítið um að á miðnætti myndi renna út einhver frestur, í lok dags 26. þessa mánaðar, og þess vegna væri mikilvægt að ræða málið í þaula og klára það. Síðan eftir að menn höfðu flutt margar ræður kom einn af hv. þingmönnum og málshefjandum upp og sagði að þetta væri rangt, hann hefði fengið nýjar upplýsingar og fresturinn hefði liðið í gær. Þá fór ég að skilja enn þá minna.

Maður skilur vel að ræða þurfi í þaula ýmis mál sem er mjög skýr ágreiningur um. Rætt var mjög lengi á sínum tíma hvort ætti að leggja niður z. Að sjálfsögðu var mjög lengi rætt hvort við ættum að ganga í NATO. Menn reyndu að verjast því í lengstu lög héðan úr pontu að félagslega húsnæðiskerfið yrði lagt niður. En þótt ég hafi hlustað á þessar umræður frá því klukkan rúmlega þrjú í dag, þ.e. síðustu tæpa fimm klukkutíma, hef ég ekki alveg náð því um hvað málið snýst nákvæmlega. Þar sem ég veit að þessir þingmenn eru bæði mælskir og skýrt hugsandi vil ég biðja í örstuttu máli um svar við því um hvað málið snýst í hnotskurn.