149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög þægileg tilfinning þegar maður botnar ekki í einhverju að finna einhvern annan sem botnar ekki neitt í því heldur. Ég man eftir því þegar bólan sprakk og rétt fyrir það, það er oft talað um 2007, þá botnaði ég ekki nokkurn skapaðan hlut í einu né neinu vegna þess að ég var bara á mínum vinnustað og fylgdist með fréttum. Svo komst ég að því eftir hrunið að það var mér mikil gæfa að hafa ekki botnað nokkurn skapaðan hlut í einu né neinu í sambandi við þetta, heldur goggaði ég bara og blóðgaði minn fisk áfram. Það var mér til tekna á þeim tímapunkti að skilja ekki nokkurn skapaðan hlut. [Hlátur í þingsal.]. Ég get alveg hughreyst þingmanninn með því að það gerir okkur að meiri en mönnum að botna ekkert í neinu.