149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem hefur farið allt í einu farið af stað í andsvörum. Hv. þm. Einar Kárason kemur og spyr þingmanninn spurningar, sem er eðlilegt. Ég held að flestir sem eru hérna núna, og ég ímynda mér að það eigi við um hv. þm. Einar Kárason og þann sem hér stendur og hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, sakni þess svolítið að fá ekki skýringar frá þeim sem ætla sér að samþykkja þetta mál um það hvers vegna þurfi að samþykkja það.

Við höfum sagt að við höfum áhyggjur af málinu vegna þess að þarna er verið að gefa eftir töluvert af fjármunum og ekki gætt ýtrustu hagsmuna gagnvart kröfuhöfunum. Við höfum líka sagt að ekki hafi komið skýring á því hvers vegna þetta þurfi að klárast eftir frestinn sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Ég tek undir að þetta er mjög undarlegt allt saman.

Mig langar að rukka hv. þm. Sigurð Pál Jónsson um það hvort það geti verið að hér sé meiri hluti á þingi fyrir því að ætla að samþykkja mál án þess að menn hafi nokkra hugmynd um hvað það snýst. Getur virkilega verið að við eigum eftir að fá fleiri ræður um það?

Ég vona að menn nýti tímann sem á að gefa í þetta mál til að koma upp ef þeir þekkja það ekki og spyrji spurninga. Það er mjög mikilvægt að fá svör. Hingað til hefur enginn af þeim sem rita undir nefndarálitið nema formaður nefndarinnar tekið til máls og skýrt hvers vegna þeir rita undir nefndarálitið. Sá sem ritar undir fyrir hönd Samfylkingarinnar hefur ekki komið hingað og sagt hvers vegna þurfi að samþykkja málið, hvað sé svona mikilvægt við það, hvers vegna það sé í lagi að gefa eftir töluverða fjármuni, myndi ég segja, til kröfuhafanna, til vogunarsjóðanna. Við hljótum því að spyrja og ég spyr þm. Sigurð Pál Jónsson að því hvort við megum vænta þess að fá frekari upplýsingar þegar líður á kvöldið.