149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst af öllu vil ég fagna því að hafa heyrt í ágætum Samfylkingarþingmanni áðan sem kom hingað upp og spurði til hvers þessi umræða væri. Það er ekki á hverjum degi sem Samfylkingarfólk leggur sig eftir því að skilja hlutina til fulls. Ég fagna þessu því mjög og ég fullvissa hv. þingmann um það að ef hann staldrar við hér fram á nótt, sem er alger draumur fyrir þingmann að gera, mun hann væntanlega komast að því að lokum til hvers þessi umræða er og til hvers henni er haldið hér áfram.

Ég þakka ræðu síðasta ræðumanns sem var mjög góð. Það kom einmitt fram hjá honum að við gerum okkur ekki grein fyrir því hvers vegna liggur svo á að afgreiða þetta mál sem varðar íslenska ríkið tugi milljarða. Hvers vegna liggur svo á að renna því í gegnum þingið? Menn gerðu sér ekki einu sinni grein fyrir því að umræða yrði um málið hér í dag. Menn héldu að það myndi renna í gegn á hálftíma eða eitthvað svoleiðis. Það yrði bara framsöguræða og síðan væri málinu lokið. Þetta yrði samþykkt.

Menn héldu að það yrði samþykkt að erlendum vogunarsjóðum yrði gert kleift, bara sisvona, að hafa á brott með sér héðan 83 milljarða á evrugengi sem stenst engan samanburð. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki nauðsynlegt að við ræðum það algerlega til hlítar og niður í grunninn hvað um er að ræða, hvaða hagsmuni er verið að forsóma fyrir Íslands hönd og hvort honum þyki ekki nauðsynlegt að við brjótum þetta mál algerlega til mergjar í kvöld og fram á nótt til þess að almenningur allur viti hvað er í gangi hér í þinghúsinu. Af hverju er verið að afsala ríkissjóði og þar með Íslendingum öllum tugum milljarða?