149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna sem hann flutti og eins skýringar í andsvörum á undan. Ég er nefnilega staddur á þeim sama stað og hv. þingmaður að skilja ekki hvað það var sem rak Seðlabankann í það í ágúst 2016 að auglýsa evrur á 220 kr., fá engin viðbrögð þegar fresturinn rann út, sem er 1. nóvember, og bregða þá á það ráð, þá nýbúnir að selja nokkurn stabba af aflandskrónum fyrir 190 kr., að lækka evruupphæðina í 137,5 og selja strax 90 milljarða á þeirri upphæð og 22 milljarða nokkru seinna, sem sagt 112 milljarða á 137,5 kr. evruna í staðinn fyrir 190 kr.

Þetta er alveg gríðarleg upphæð sem menn hafa látið af hendi rakna við vogunarsjóði. Þess vegna styð ég eindregið þá kröfu hv. þingmanns að seðlabankastjóri og hans menn verði látnir koma fyrir efnahags- og viðskiptanefnd milli umræðna til að útskýra fyrir okkur hvað það var sem rak Seðlabankann á árunum 2016 og 2017, þegar allt var á hagsögulegum toppi, til að lækka verð úr 190 kr. í 137,5 kr. og feta þar með þá slóð sem nú er verið að enda, að selja aflandskrónur á brunaútsölu. Mig langar að biðja hv. þingmann að fara yfir þetta í meiri smáatriðum þannig að við skiljum öll hvað getur hafa legið til grundvallar því að Seðlabankinn greip til þessa óyndisúrræðis.