149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum enn fyrir að varpa ljósi á málið. Maður heyrir þær upphæðir nefndar sem er búið að gefa eftir í síðustu þremur útboðum og á síðan að gefa eftir alveg niður. Ég orðaði það þannig í ræðu minni áðan að þetta væri með vogunarsjóðina eins og ef við myndum sjálf koma við í Leifsstöð og taka út gjaldeyri á leið til útlanda. Þeir ágætu aðilar eru að fara í burtu með 83 milljarða íslenskra króna á þessu gengi. Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé einboðið að taka þetta mál upp í heild milli 2. og 3. umr. og fara gaumgæfilega ofan í það hvort mönnum er í raun og veru alvara að láta 83 milljarða af hendi á slíkum kjörum.