149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Það er gott fyrir okkur að fá þetta í eyrað samantekið þannig að kjarni vegferðarinnar náist fram. Ég hef sagt fyrr í þessari umræðu að það sem ég hafi mestar áhyggjur af séu skilaboðin sem við erum að senda frá okkur um það hversu linir samningamenn við erum, hagsmunagæslumenn lands og þjóðar, þegar á reynir. Mótaðilinn veit þá að málsvarar íslenskra hagsmuna eru líklegir til að gefa eftir og séu þeir látnir bíða í dálitla stund sé tiltölulega tryggt að menn nái betri heimtum, ef þeir skirrast við.

Nú var hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra árið 2015 þegar planið, ef svo má segja, er sett af stað. Mér leikur hugur á að vita hvað það er sem hann metur að hafi verið mikilvægast í skilaboðunum sem voru send út til markaðarins, til mótaðilanna, til kröfuhafanna. Maður man eftir því úr kosningabaráttunni árið 2013 að talað var um kylfu og gulrót, svo að ég rifji upp eitt kommentið sem féll í því samhengi. Mig langar að vita hvað hv. þingmaður, fyrrverandi forsætisráðherra, metur að hafi verið mikilvægast í skilaboðunum til að ná þeim ævintýralega árangri sem náðist framan af meðan planið hélt, þó að menn séu að lyppast niður á síðustu metrunum.