149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp ríkisstjórnarinnar um að heimila eigendum aflandskróna, sem fastir hafa verið inni í fjármagnshöftum, að losa þær og selja þær fyrir gjaldeyri. Krónueignirnar sem lagabreytingin á að ná til nema allt að 84 milljörðum króna og verður öllum aflandskrónueigendum gefið færi á að losa þær eignir sínar, skipta þeim yfir í gjaldeyri og flytja úr landi. Breytingarnar fela í sér auknar heimildir til úttektar af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum, þannig að öllum aflandskrónueigendum er gefið færi á að losa aflandskrónueignir sínar.

Heimildirnar sem fram koma í frumvarpinu eru þríþættar. Í fyrsta lagi er um að ræða almenna heimild fyrir alla aflandskrónueigendur til að losa aflandskrónueignir til að kaupa erlendan gjaldeyri og flytja á reikning erlendis. Í öðru lagi er heimild fyrir aflandskrónueigendur sem átt hafa aflandskrónueignir samfellt frá 28. nóvember 2008, eða í rúm 10 ár, til að losa aflandskrónueignir undan takmörkunum laganna. Í þriðja lagi er heimild fyrir einstaklinga til að taka út allt að 100 millj. kr. af reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum.

Eins og við þekkjum og komið hefur fram í umræðunni voru stigin stór skref á árinu 2016 í átt að losun hafta. Á heimili og fyrirtæki voru fjármagnshöft losuð að mestu leyti á árinu 2017.

Við gildistöku laga um aflandskrónur voru aflandskrónueignir áætlaðar um 319 milljarðar kr., eða um 15% af landsframleiðslu, en eru nú metnar um 84 milljarðar kr., eða 3,1% af landsframleiðslu.

Í greinargerðinni með frumvarpinu segir að efnahagslegar forsendur standi því til að losa fjármagnshöft á aflandskrónueignum. Við höfum rætt hér aðeins hvort það sé í raun og veru rétt, þ.e. að þessar efnahagslegu forsendur séu til staðar. Við þekkjum að það eru blikur á lofti í þessum efnum. Við þekkjum að kjarasamningar eru lausir, kjaraviðræður og hugsanleg verkföll eru fram undan, dregið hefur úr landsframleiðslu og færri ferðamenn heimsækja landið o.s.frv., þannig að ég er ekki alveg sammála því að efnahagsforsendurnar standi svo vel að rétt sé að losa þetta með þessum hætti. En að sjálfsögðu er eðlilegt að það verði rætt innan nefndarinnar og sérfræðingar á þessu sviði fengnir fyrir nefndina til að ræða það nánar.

Ég hef áður komið inn á það hér hver áhrif á gengi krónunnar geta verið. Þau ráðast að stórum hluta af því hversu mikið verður keypt af gjaldeyri. Er það svolítið áhyggjuefni hvaða áhrif þetta getur haft á stöðu gengisins. Í greinargerðinni segir að Seðlabankinn sé vel í stakk búinn til að takast á við það, en vissulega mun það kosta eitthvað. Þá er spurningin: Er þeim fjármunum vel varið? Það eru þær mótvægisaðgerðir sem Seðlabankinn segist getað gripið til. Það skiptir náttúrlega líka máli á hversu langan tíma kaup á gjaldeyri dreifast.

En það sem er einnig athyglisvert við þetta mál er að fyrst var það þannig að Seðlabankinn veitti þeim afslátt sem komu með erlendan gjaldeyri inn í landið og núna er veitt meiri þjónusta til þessara sömu aðila svo þeir geti flutt peningana aftur út úr landinu eftir mikinn hagnað. Það væri að sjálfsögðu fróðlegt að fá að vita hverjir eiga þessa 84 milljarða í aflandskrónum. Hverjir eru það sem munu hagnast svona mikið á þessu og hafa mætt stjórnvöldum af þeirri hörku sem hér hefur verið rætt um, og uppskorið í þeim efnum? Það væri að sjálfsögðu mjög fróðlegt að fá svör við því.

Ég vil víkja aðeins að því sem ég hef áður komið inn á vegna þess að ég tel mjög mikilvægt í þessari umræðu að rifja aðeins upp hvernig framkoma þessara sjóða var gagnvart íslenskum stjórnvöldum, sérstaklega þegar keyptar voru auglýsingar sem beindust beinlínis gegn íslenskum stjórnvöldum. Þeir gerðu ýmislegt annað en að kaupa auglýsingar. Þeir réðu þekktar hugveitur, eins og kallaðar eru, og svo fóru að birtast auglýsingar um afstöðu íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum fjárfestum og íslensk stjórnvöld gerð mjög tortryggileg í þeim efnum. Þarna var fyrirbæri sem kallað er Iceland Watch, með leyfi forseta, það er rekið af annarri hugveitu sem heitir Institute for Liberty, með leyfi forseta.

Þessir aðilar vöktu fyrst athygli hér á landi þegar þeir birtu boðskap sinn á Twitter og voru þar að níða íslensk stjórnvöld. Tilgangur var augljós, að gæta hagsmuna þessara erlendu kröfuhafa sem neituðu að taka þátt í aflandskrónuuppboði Seðlabankans. Það má t.d. rifja upp textann í heilsíðuauglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu. Þar var yfirskrift auglýsingarinnar: Hver greiðir fyrir opinbera spillingu og mismunareglur á Íslandi? Þar var mynd af seðlabankastjóra. Síðan var í auglýsingunni vísað í eitthvert rannsóknarteymi í Bretlandi sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að þessi stefna Íslands, sem var að sjálfsögðu rétt og snýr að fullveldi landsins, átti að hafa komið í veg fyrir að 30.000 störf hefðu skapast á Íslandi og að stefnan hefði kostað á bilinu 5–9 milljónir bandaríkjadala í landsframleiðslu árlega. Síðan er vegið að einum starfsmanni Seðlabankans í auglýsingunni, hann nafngreindur og sagt að hann sæti rannsókn á meintum innherjasvikum. Við sjáum bara þessa aðferðafræði. Það er náttúrlega með ólíkindum að stjórnvöld hér, ríkisstjórnin, skuli síðan greiða götu þessara sömu aðila sem farið hafa fram með þessa herferð gegn okkur sem skaðað hefur orðstír okkar erlendis.

Við þekkjum að þeir sem sakaðir hafa verið um að hafa áhrif eða reyna að hafa áhrif á kosningar í fullvalda ríkjum hafa jafnvel verið beittir refsiaðgerðum. Rússar hafa verið sakaðir um að hafa reynt að hafa áhrif á kosningar í öðrum löndum og fyrir vikið hefur refsiaðgerðum verið beitt gegn þeim.

Hér sjáum við hins vegar allt aðra stefnu. Hér sjáum við íslensk stjórnvöld beygja sig fyrir þessum aðilum sem komið hafa svona fram, eins og þau horfi algjörlega fram hjá því. Mér finnst mjög miður og sorglegt að stjórnvöld skuli ekki beita meiri hörku hvað þetta varðar og leggjast núna flöt fyrir þessum sjóðum.

Hv. þm. Einar Kárason spurðist fyrir í andsvari áðan um hvað málið snerist. Ég vil fá að svara því þannig, eins og kannski fleiri, að mér finnst þetta mál einfaldlega snúast um að stjórnvöld segi eitt og geri annað. Kjarni málsins er sá að veðmál vogunarsjóðanna gengu upp. Þingmaður sagði að höftunum hafi upphaflega verið ætlað að gilda í nokkra mánuði, en að tekið hafi á níunda ár að losa þau. Þó að vissulega séu þau enn í gildi hafi þau þjónað þeim tilgangi að draga úr högginu sem varð við hrun bankanna. Þetta hefur komið fram í umræðum um haftalosunina.

Það er líka rétt að minnast á að það er trúverðugleikinn sem skiptir okkur mestu máli í þessu. (Forseti hringir.) Eins og ég segi, veðmál vogunarsjóðanna gekk algerlega upp og að einhverju leyti tókst þeim að brjóta íslensk stjórnvöld niður. Það er afar sorglegt.