149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og tek heils hugar undir það með honum. Það er alveg greinilegt að þetta frumvarp er ekki nægilega vel unnið. Ég verð að lýsa undrun minni og vonbrigðum með að um leið og framsögumaður nefndarálitsins, hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, var búinn að lesa hér upp úr greinargerðinni, flytja sitt mál, sem hann var snöggur að gera, lét hann sig hverfa úr þingsal og hefur ekki sést síðan.

Fyrst málið er svona mikilvægt verð ég að segja að ég skil ekki hvernig menn geta komið fram með þessum hætti, eru ekki hér til staðar til að geta svarað ákveðnum spurningum. Ég hefði talið eðlilegt að fjármálaráðherra væri viðstaddur þessa umræðu vegna þess að málið er það stórt og mikið og mun hafa áhrif á alla fjárlagavinnuna og efnahagsmálin í heild sinni. Ef það gengur eftir fá þessir aðilar að fara út með krónueignir sínar og skipta þeim yfir í gjaldeyri, sem veldur síðan miklum þrýstingi á krónuna. Við þekkjum hvaða áhrif það getur haft á lán heimilanna, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega.

Ég verð að segja að ég lýsi vonbrigðum með það og það er afar undarlegt að ekki skuli vera fleiri stjórnmálaflokkar hér á þingi sem taka þátt í þessari umræðu. Ég nefni t.d. Samfylkinguna, sem virðist ekki hafa nokkurn áhuga á þessu máli. Sömuleiðis Viðreisn, það er ekki nokkur einasti áhugi á þeim bænum fyrir þessu máli. Framsóknarflokkurinn hefur ekkert tjáð sig um þetta mál. Þannig að ég verð að segja eins og er; ef málið er svona stórt (Forseti hringir.) og það liggur svona á að samþykkja það, hvers vegna í ósköpunum eru þessir flokkar eða fulltrúar þeirra þá ekki hér til að svara (Forseti hringir.) spurningum og tjá sig um þetta mál?