149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þegar stórt er spurt: Af hverju vill enginn svara fyrir þetta? Ég veit það auðvitað ekki en mig grunar að það sé enginn sérstakur áhugi stuðningsmanna þessa frumvarps á að tala fyrir því núna, loksins þegar einhver umræða hefur átt sér stað um það. Það hafa engin haldbær rök komið fram sem byggja undir það af hverju menn ættu að láta þessa fullkomnu eftirgjöf, uppgjöf ganga í gegn.

Tímafresturinn sem rann út í gær, miðað við umsögn Seðlabankans, virðist ekki hafa haft nein áhrif í dag. Það er ekkert aðkallandi. Það er enginn tímafrestur sem snýr að lagasetningunni eða regluverkinu sjálfu. Ég held að þetta sé einhvern veginn blanda af því að menn nenni ekki og vilji ekki setja sig inn í málið. Það verður þá bara skamma mig fyrir að halda því fram. Ég held því miður að það sé þannig. Ég held að að einhverju marki séu menn orðnir saddir, prógrammið hafi gengið svo vel, planið stóra frá 2015, að menn telji sig ekki þurfa meira.

Þá minni ég á að það eru ekki nema tveir mánuðir eða 10 vikur síðan menn stóðu hér og tosuðust á um 100 milljónir hér og 100 milljónir þar í fjárlagavinnunni. Bara með gengismuninum sem krónueigendur sættu sig við 17. mars 2017, eftir mikla eftirgjöf Seðlabankans, bara með því hlutfalli erum við að tala um 13,6 milljarða í þeim stabba sem nú er til afgreiðslu og á að hleypa út á pari. Ég vildi svo innilega komast í eitthvert samtal við stjórnarliða um þetta mál í þingsal, en það virðist enginn ætla að láta sjá sig hér og eiga samtal við okkur um þetta.