149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég ætla að fylgja þessu aðeins áfram vegna þess að ég er sammála honum um þær drápsklyfjar sem lagðar eru á alla sem hér taka lán, unga fólkið okkar sem flytur ekki heim og fleiri sem þurfa að fjármagna t.d. húsnæðiskaup og annað. Mér dettur í hug hvort hv. þingmaður hafi velt fyrir sér þeim áhrifum sem útflæðið núna gæti haft á vaxtastig á Íslandi. Ef þetta verður nú raunverulegt útflæði, þessir 84 milljarðar, gæti það haft einhver áhrif á vaxtastigið á landinu? Í öðru lagi hvort hv. þingmaður sjái fyrir sér að útflæði þessa fjár gæti haft áhrif á gengi krónunnar. Það væru náttúrlega mjög slæm tíðindi nú þegar samið er um kaup og kjör alls staðar. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt þessum tveimur þáttum fyrir sér út af þessari aðgerð.