149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Af því ég er hér að veita andsvar verð ég að gera athugasemdir við það að hv. þingmaður skuli hálfpartinn vera að bera í bætifláka fyrir flutningsmenn þessa máls, svona að einhverju marki með tali um 13 milljarða tjón. Það hlýtur að vera eðlilegra að miða við 190 krónurnar sem á sínum tíma voru það lægsta sem Seðlabankinn sagðist myndu taka fyrir evrur, kynni að vera hærra en það lægsta sem bankinn myndi taka væru 190 kr. Þá var gengi krónunnar einmitt á svipuðum stað og það er núna, meira að segja heldur veikara. Í 12. mars bixinu var hins vegar gengi krónu óvenjusterkt og evran í 107 kr. Mér reiknast til að eftirgjöfin nemi a.m.k. 23 milljörðum í þeirri umferð, að í þessum 83–84 milljörðum sé eftirgjöfin hæglega 23 milljarðar. Þá er um að ræða sömu eftirgjöf og þeir sem voru fyrst tilbúnir til að ganga að skilyrðum stjórnvalda fengu. Það er varla eðlilegt að þeir sem gerðust eftirlegukindur og voru ekki til í að spila með fái betra verð en þeir sem voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum strax í upphafi. Ég myndi segja að eðlilegri viðmiðun væri 190 kr. og þar af leiðandi um 23 milljarða kr. tap.

Það var áhugavert sem hv. þingmaður nefndi um að hann vonaðist til að menn myndu gefa eftir í eftirgjöfinni. Í þeim efnum hefur maður áhyggjur, í ljósi reynslunnar, vegna þess að það eina sem menn hafa sýnt verulega hörku í, sumir hverjir, er að verja eftirgjöfina gagnvart útlendingum, til að mynda gagnvart innheimtuaðgerðum erlendra ríkja hér fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Svoleiðis að maður óttast auðvitað að menn muni verja eftirgjöfina núna. Spurningin er þá: Hvers vegna? (Forseti hringir.) Hvers vegna er ekki hvað síst vinstri mönnum svona annt um að gefa eftir gagnvart alþjóðafjármálakerfinu? (Forseti hringir.) Þetta er ekki bara íslenskt fyrirbæri. Hvað er að gerast með vinstri menn á alþjóðavettvangi?