149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Svo margt hefur margt komið upp í umræðunni í kvöld að það er verst að hafa ekki 20 mínútur til ráðstöfunar. Mig langar samt til að fara aðeins yfir nokkur atriði.

Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér að nú er klukkan líklega orðin 5 vestur í New York og búið að loka Kauphöllinni, en ljósin hér í þingsalnum loga enn. Ég veit ekki til þess að krónan hafi hrunið þannig að það virðist vera eitthvert líf eftir 26. febrúar. Mér virðist sem nú sé tekið frá okkur mesta stressið. Stressið er ekki mikið meira í þessu máli en svo að ég skildi ekki framan af degi hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra var ekki hér í húsi. Þá var mér sagt að hann væri á íhaldsmannaráðstefnu eða íhaldsmannaskemmtun einhvers staðar úti í löndum. Ég skil vel að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að hitta íhaldsvini sína í útlöndum, kannski er hann að hugga Theresu May, hvað veit maður. En ég skil samt ekki, herra forseti, að hvorki hann né hans helsti staðgengill í þessu máli, nefnilega formaður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, skuli ekki vera hér og taka þátt í þessari umræðu, þótt ekki væri nema til að segja okkur hinum að við höfum kolrangt fyrir okkur um allt sem við förum með hér. Það væri mannsbragur að því ef þeir rækju ofan í okkur það sem við erum að tala um hér. Það væri bara býsna gott.

Ég verð reyndar að viðurkenna að svo virðist sem nánast allir í þessu húsi hafi litið þannig á að það að losa um 84 milljarða á gjafverði sé eitthvað sem taka eigi heldur létt. Ég varð var við það í hliðarherbergjum áðan að menn höfðu það í flimtingum að við Miðflokksmenn værum að hafa áhyggjur af þessu máli og vildum ræða það. Jafnvel þótti ráðherrum í ríkisstjórninni það nánast fyndið og óþarfi að við skyldum vera að þessu. Að vísu voru það ráðherrar af því sauðahúsi sem var tilbúið í það fyrir um 10 árum síðan að hneppa Íslendinga í þrældóm til langrar framtíðar og nenntu ekki að hafa einhver mál sem vörðuðu alla þjóðina hangandi yfir sér og leystu þau í flaustri og leystu þannig náttúrlega ekki neitt. Það er kannski ástæðan fyrir því að þessu er svona létt tekið í hliðarsölum þingsins.

En þetta fólk hefur ekki komið hér í þingsal. Það hefur ekki mætt okkur. Það hefur ekki tekið umræðuna við okkur. Það hefur ekki rekið okkur á gat. Það hefur ekki getað komið hér og sagt okkur að þetta sé allt saman misskilningur, að við þurfum ekkert að vera að þessu. Þetta fólk hefur alls ekki komið hér og sannfært okkur um það, vegna þess að þetta fólk er ekki hér.

Það er út af fyrir sig merkilegt, eins og hér hefur komið fram nokkrum sinnum, að menn skuli hafa ætlað að lauma þessu máli í gegn, í fyrsta lagi á einum síðasta degi þingsins fyrir jól og voru þá gerðir afturreka. Þeir gera það aftur núna af þeirri ástæðu að allt fari í steik ef þetta hefði ekki verið samþykkt reyndar í gær, þannig að það er fullseint í rassinn gripið. En það er ekki ástæða sem maður getur tekið mark á, sem ætti að hræða menn til þess. Ég segi hræða menn til þess að samþykkja þetta frumvarp eins og það er, ég sé enga ástæðu í þessu frumvarpi fyrir því að það liggi þessi lifandis ósköp á, vegna þess eins og komið hefur fram í ræðum nokkurra manna hafa þeir sem undirrituðu nefndarálitið sem fylgir frumvarpinu ekki verið hér til andsvara um hvers vegna liggur svona mikið á, hvers vegna það ber svona brátt að því að við þurftum að samþykkja það.

Í dag hefur verið farið mjög vel í gegnum þetta mál frá upphafi frá 2015. Ég get ekki varist því að ég staldra mjög við tímabilið frá ágúst 2016 til febrúar/mars 2017, þar sem Seðlabankinn lætur í fyrsta lagi frá sér krónur fyrir 190 kr. evruna, líklega júlí 2017, og býður svo út á 220 kr. með fresti til 5. nóvember. Enginn tekur tilboðinu. Þá er allt sett á brunaútsölu og selt í febrúar/mars á 137 kr. Ég held að það væri full ástæða til þess, og ekki bara full ástæða, ég held að það sé alveg ómögulegt annað en að þetta mál fari nú að aflokinni þessari umræðu, hvenær sem það nú verður, því að við höfum nægan tíma, aftur til efnahags- og viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. þannig að hægt sé að fara almennilega ofan í saumana á öllu þessu ferli. Fara ofan í saumana á því hvers vegna menn treysta sér til þess að láta 84 milljarða lausa án nokkurs álags. Það er ekkert álag. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er enginn munur á því hvort einhver skottast suður í Leifsstöð og tekur sér út 100 evrur á leið til útlanda, eða hvort einhver sem kemur á eftir, klyfjaður með tvær töskur, tekur út 84 milljarða og hefur þá með úr landi. Sama gengi. Sama upphæð. Skiptir engu máli.

Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum er þetta með þessum hætti? Líka vegna þess að nú hefur það gerst að gengi krónunnar hefur gefið eftir. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti verið að þessir peningar verði að vera lausir núna út af kjarasamningagerð sem stendur yfir, hvort menn telji að nú verði að losa um þá áður en slíkt gerist, af því að það muni kannski breyta forsendum með einhverjum hætti, sem það gerir kannski.

Það er líka vegna þess að „útspil“ ríkisstjórnarinnar, sem kom fram fyrir nokkrum dögum síðan, er náttúrlega svo galið að það verður ekki til að leysa eða greiða fyrir lausn á kjarasamningum, hvað þá heldur þegar þeir sem þar semja, jafnvel fyrir þá sem minnst hafa, reka sig á að menn eru reiðubúnir til að láta vogunarsjóðum eftir 23 milljarða kr. í þessari atrennu. Þeir komu hér fyrir nokkrum dögum síðan með galnar skattahugmyndir inn í kjarabaráttuna, mátu það á 18 milljarða, og sögðu: Við eigum ekki meira til. — En menn eiga 23 milljarða fyrir vogunarsjóðina. Ríkisstjórnin er svo sem ekki vinur hins vinnandi manns. Hún er er vinur vogunarsjóðanna. Eins og ég sagði áðan: Hér er boðið til veislu vogunarsjóða á kostnað landsmanna og veislustjórinn er hæstv. fjármálaráðherra.

Ég held að við öll og fulltrúar meiri hlutans á þingi ættum endilega að koma okkur saman um að fara með þetta mál aftur inn í nefnd og vinna það til hlítar þannig að við séum þá alla vega öll sammála um hvernig með það verður farið. Eins og nú er búið um hnútana get ég ekki séð að nokkur einasti friður skapist um þetta mál. Ég veit reyndar ekki hvað skýrir andvaraleysi annarra stjórnarandstöðuflokka á þingi, ég næ bara ekki upp í það. Menn komu hér fram í 2. umr. fjárlaga með ágætar tillögur, digrar, í velferðarmálum, sem kostuðu að vísu töluvert mikið af peningum og átti að sækja þá að mestu með veiðigjöldum, en hérna eru 23 milljarðar sem liggja lausir, sem hefði verið hægt að nota í þau þarfaverk sem þetta sama fólk var að berjast fyrir. Það hreyfir hvorki legg né lið.

Hversu sannfærandi er þetta, herra forseti? Hversu trúverðugt er þetta, herra forseti? Hversu trúverðugt er það fólk sem segist bera hag aldraðra, öryrkja, þeirra sem minnst hafa, fyrir brjósti, eins og er svo tilbúið að láta 23 milljarða í þessari atrennu einni lausa til vogunarsjóða?

Eins og hér hefur komið fram áður í dag, er þetta skref hér enn eitt skrefið á langri leið þar sem ríkisstjórnin hefur í sífellu látið undan ímynduðum, raunverulegum kröfum vogunarsjóða. Og svo virðist sem mönnum sé meira í mun að vera á jólakortalista einhverra vogunarsjóða úti í heimi en að hysja upp um sig buxurnar og hugsa um íslenska alþýðu og íslenska þjóð. Því að 23 milljarðar eru ekkert smotterí. Það er hér um bil sama upphæð og er áætlaður afgangur á ríkissjóði samkvæmt fjárlögum 2019. (Forseti hringir.) Og þeir 84 milljarðar sem menn ætla að láta lausa núna án nokkurs álags eru alveg upp undir (Forseti hringir.) 10% af fjárlögum íslenska ríkisins. Og þetta á að afgreiða á þremur tímum. Hneyksli.