149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Fyrst vil ég segja: Það gerist ekkert stórkostlegt, það gerðist ekkert í dag, gerðist ekkert í gær og það mun ekkert gerast á morgun út af þessum eindaga sem var í dag. Á meðan menn gera ekki einhverja bölvaða vitleysu í þessu máli og fara ekki á taugum þá höldum við þessu ágætlega „under control“, afsakið slettuna, hér eftir sem hingað til. Ég held að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson og við öll sem hér erum ættum ekki að hafa áhyggjur af því að markaðirnir ruggi sérstaklega á morgun vegna þessa máls.

Þetta atriði sem snýr að því að það hafi átt með einhverjum ráðum að lauma þessu í gegn, finna leið til að sleppa við alla umræðu, bendir til þess að menn telji sig með veikan grundvöll fyrir að taka hinn málefnalega slag, hina málefnalegu rökræðu. Mig fýsir að vita, af því að nú var hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson á þingi kjörtímabilið 2013–2016: Upplifði hann það mörgum sinnum að reynt væri að skjóta málum í gegn án mikillar umræðu? Er þetta algengt verklag á hinu háa Alþingi? Og er þetta í fyrsta skipti síðan í kosningum í lok árs 2017 sem hann sér svona æfingar?