149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:25]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að víst gæti það orðið til þess að stytta þessa umræðu ef við fengjum, nú gríp ég bara ofan í það sem hv. varaþingmaður, Einar Kárason, sagði hér áðan, svona sæmilega að vita af hverju liggur svona á, ef við fengjum sæmilega að vita hvers vegna þessi asi er, af hverju það þarf að klára þetta mál í gær, á hvaða forsendum þessi eftirgjöf á verði evru er í þessum viðskiptum. Ef einhver gæti útskýrt það fyrir þeim sem hér stendur þá þyrfti hann kannski ekki að tjá sig rosalega mikið eftir það ef raunin yrði að þau rök sem fram kæmu væru trúverðug og til þess fallin að maður tæki mark á þeim.

Ég segi hins vegar aftur, og ég vona að hv. þingmaður taki undir það með mér, að eins og málið er nú búið þá þarf að taka það til efnahags- og viðskiptanefndar aftur, fá Seðlabankann og fleiri til fundar og fá botn í það hvers vegna það þarf að samþykkja það í gær.