149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:31]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um þetta. Ég hef haldið því fram í ræðu og riti að ríkisstjórnin eigi ekki 1,1 milljarð til þess að bæta kjör öryrkja, en hún eigi 23 milljarða til að gefa vogunarsjóðum. Ríkisstjórnin á ekki 2 til 3 milljarða til að lagfæra krónu á móti krónu skerðinguna, en hún á 23 milljarða til að færa vogunarsjóðum. Þessi ríkisstjórn er ekki ríkisstjórn hinna vinnandi stétta. Hún er ekki ríkisstjórn almennings á Íslandi. Hún er ríkisstjórn vogunarsjóðanna. Og eins og ég sagði áðan þá er búið að dekka veisluborð fyrir vogunarsjóðina og veislustjórinn, sjálfur fjármálaráðherra, sem er reyndar núna í íhaldsmannaveislu í útlöndum, situr við borðið mitt og brýtur brauðið og skammtar á diska. Það er þetta hlutskipti sem þessi ríkisstjórn hefur valið sér, að taka hagsmuni vogunarsjóða fram yfir hagsmuni almennings á Íslandi. Það er mjög miður.