149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég tel það skjal, sem ber heitið Losun fjármagnshafta og er kynnt sem áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands um losun fjármagnshafta með stöðugleikaskilyrðum og álagningu stöðugleikaskatts á slitabú og fjölvalsútboð fyrir aflandskrónur til að tryggja jafnvægi og hagfelld vaxtarskilyrði þjóðarbúsins, hafi sérstaka þýðingu við umfjöllun um þetta mál. Þetta plagg er dagsett 2015 og er gefið út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Herra forseti. Það liggur rauður þráður í gegnum þetta plagg þegar kemur að því vandamáli sem hér er til umræðu, sem eru þessar svokölluðu aflandskrónur. Aflandskrónur eru eignir erlendra aðila, yfirleitt og mestan part eftir því sem upplýst hefur verið vogunarsjóðir og slíkir aðilar, sem talið var nauðsynlegt að læsa inni í landinu með hinum svokölluðu fjármagnshöftum sem tekin voru upp með efnahagsáætlun í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir efnahagsáfallið 2008.

Rauði þráðurinn þegar kemur að þessum þætti vandans sem við var að etja er sá að lausn hans væri svokölluð uppboðsleið. Eigendum þessara eigna væri gefinn kostur á því að losa um þessar eignir og flytja úr landi í krafti uppboða sem voru nánar skilgreind. Hér voru mjög umtalsverðar fjárhæðir bundnar með þessum hætti og það hefur verið rakið hér að þær hafi numið sem samsvarar 15% ríflega af landsframleiðslu, en í tímans rás hafi þær dregist saman. Eftir standa eignir sem svara til 3% af árlegri framleiðslu í okkar þjóðarbúi og þær eru metnar, eins og hér hefur komið fram og sýnt í sérstakri töflu í greinargerð með þessu frumvarpi, svarandi til 84 milljarða kr.

Uppboðsleiðin fær mjög rækilega umfjöllun í þessu skjali ríkisstjórnar og Seðlabanka. Það er til að mynda sagt um þennan svokallaða aflandskrónuvanda — ég tek það fram að ég hef nú aldrei fellt mig við þetta orð, afland, hvað þá aflandskrónuvandi en látum það gott heita — sem ég skilgreindi áðan og það boðað að hann skuli leystur með uppboðum á gjaldeyri og skyldum aðgerðum. Þarna er rætt um gjaldeyrisuppboð þar sem kröfuhafar greiði viðbótargjald í formi hærra gengis fyrir útgöngu úr gjaldeyrishöftum.

Það er rakið að kvaddur hafi verið til starfa maður sem kynntur er sem einn færasti sérfræðingur heims í hönnun uppboða, hann hafi veitt stjórnvöldum ráðgjöf og það er meira að segja tekið fram að ráðgjöf hans sé að hans eigin ósk íslenskum stjórnvöldum endurgjaldslaus. Hér ræðir um prófessor í Oxford-háskóla að nafni dr. Paul Klemperer og greint frá því að hann hafi ráðlagt stjórnvöldum við hönnun og útfærslu uppboðsins í samstarfi við nánar tilgreint hagrannsóknarfyrirtæki. Það er greint frá því að þessi viðurkenndi sérfræðingur hafi hannað og stýrt uppboðsferlum fyrir Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum árum með eftirtektarverðum árangri. Síðan segir: „Uppboðin verða fjölvalsútboð“, þ.e. nánar tilgreind tegund af uppboði og að Seðlabanki Íslands muni annast framkvæmdina.

Herra forseti. Í hagvísindunum er mikil og áhugaverð grein sem lýtur að uppboðum. Þau eru mjög mikilvægur þáttur í verðmyndun og verðlagningu og er þar fjallað um uppboð sem leið til þess að kalla fram verð á vöru og þjónustu. Uppboð geta verið með margvíslegum hætti og er fjallað um þetta í þessum fræðum og þarna kemur maður sem hefur lagt þessi fræði fyrir sig sem sérgrein. Það segir sömuleiðis að endanleiki, eins og það er orðað, uppboðsaðferðarinnar sé tryggður fyrir fram, uppboðsaðferðin tryggi að böndum verði komið á allar aflandskrónur. Röksemdirnar koma hver á fætur annarri fyrir því að þetta sé rétta leiðin, þarna hafi verið kallaður til sérfræðingur sem hafi ráðlagt aðilum á borð við Englandsbanka og Seðlabanka Bandaríkjanna og það skýrt fyrir lesendum að þeir aflandskrónueigendur sem nýti uppboðið til að bjóða í gjaldeyri í skiptum fyrir íslenskar krónur muni greiða fyrir það verulegt álag. Sömuleiðis segir að þessir aðilar muni bera nauðsynlegan kostnað af því að losna undan gjaldeyrishöftum og að uppboðsfyrirkomulagið tryggi að fjárfestar greiði álag fyrir forgöngu út úr gjaldeyrishöftum. Enn fremur segir að með þessu sé lausn vandans tryggð, allir lausir endar hnýttir og niðurstaðan verði jafnvægi milli hagsmuna þjóðarinnar og aðgerða stjórnvalda gagnvart aflandskrónum.

Nú stöndum við frammi fyrir þeirri stóru spurningu, herra forseti: Hvers vegna hafa stjórnvöld fallið frá þessari leið? Af hverju er vikið af þessari mörkuðu braut sem er svona nákvæmlega rakin og útfærð og rökstudd þegar lagt var upp með þetta stóra átak 2015 í samstarfi ríkisstjórnar og Seðlabanka? Hér hefur verið rakið að miðað við það uppboðsgengi sem sést hefur í þessum uppboðum Seðlabankans sé ríkissjóður að verða af mjög umtalsverðum fjárhæðum sem jafnvel eru taldar á þriðja tug milljarða króna. Það væri nú heldur betur hægt að byggja nokkur dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða og sjá til lands í því stóra máli ef slíkar fjárhæðir væru til reiðu. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa lýst eftir viðhorfum innan úr stjórnarflokkunum sem bera náttúrlega fram þetta mál, en ekki síður frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem láta ekki svo lítið að taka þátt í þessari umræðu nema eftir því sem mér skilst með einni undantekningu.

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að það verði skýrt fyrir Alþingi hvers vegna stjórnvöld hafa í raun og sanni horfið frá þessari meginstefnu eins og hún var mörkuð á sínum tíma.