149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:45]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er von að spurt sé. Þess er náttúrlega að minnast að menn kiknuðu svolítið í hnjánum í Stjórnarráðinu, til að mynda í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar sem svo kallaði sjálfa sig svo fagurlega og eftirminnilega. Það virtist ekki þurfa annað en að það kæmi maður í jakkafötum og talaði útlensku. Þá brustu varnirnar þegar þjóðarhagsmunirnir voru annars vegar.

Þá munaði ekkert um að samþykkja ólögvarðar kröfur sem ekki stóðu á neinum lögfræðilegum grundvelli. Það vantaði svo sem ekki að það væri mannskapur í landinu og fjölmiðlar sem slógu taktinn undir. Ekki var talað um þetta sem ólögvarðar kröfur af öllum. Það var Icesave-skuldin. Ekki dró Ríkisútvarpið af sér og þeir ágætu tveir stjórnmálaflokkar sem skipuðu ríkisstjórn sitja núna hvor sínum megin við ríkisstjórnarlandamærin. Annar í forystuhlutverki hér, hinn til skamms tíma forystuflokkur stjórnarandstöðunnar, en ekki lengur. Við sáum hvernig þeir stóðust þrýstinginn.