149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er vitanlega lykilspurning sem ágætt væri að fá einhvern tímann svör við frá Seðlabankanum, hvers vegna horfið er frá þessari áætlun sem lagt var af stað með. Undanhaldið er svo sem kannski löngu byrjað ef maður fer aðeins yfir söguna. Það er ljóst að það er langt síðan byrjað var að eiga fundi með þessum eigendum og búa til einhvers konar samkomulag sem skilar okkur á þann stað sem við erum núna með þá staðreynd að við erum fá miklu minna fyrir þetta en við ættum kannski að fá.

Þingmaðurinn svaraði reyndar annarri spurningu sem ég ætlaði að spyrja hann að, hvort það væri ekki einmitt þekkt í fræðunum, af því hv. þingmaður er sérmenntaður í hagfræði og slíku, að teikna upp og setja fram sviðsmyndir og reyna að greina áhættuna, minnstu mögulegu áhættu og mestu mögulega áhættu o.s.frv. Maður saknar þess vitanlega að það sé ekki gert í ljósi þess að það eru töluverðir fjármunir þarna undir.