149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[22:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það laukrétt sem hv. þingmaður nefnir að undanhaldið er löngu hafið. Við heyrðum mjög rækilega yfirferð hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í nokkrum ræðum hér í dag þar sem hann rakti það í einstökum atriðum hvernig nákvæmlega var staðið að þessu undanhaldi, hvernig hlaupið var frá áður boðuðum yfirlýsingum um fyrirkomulag og framkvæmd o.s.frv. Það er út af fyrir sig ekki nýtt. Það sem er nýtt í málinu er að það skuli algerlega verið horfið frá uppboðsleiðinni sem aðferð. Ég leyfi mér að nefna að það vekur furðu að fulltrúar íslenskra stjórnvalda skuli hafa lagt á sig ferð til Nýju-Jórvíkur í Bandaríkjunum til þess að ræða við einhverja hagsmunaaðila þar. Maður hefði talið að það væru þeir sem væru að sækja á um einhverja fyrirgreiðslu eða afgreiðslu mála hjá íslenskum stjórnvöldum, þeir kæmu og ræddu þessi mál á heimavelli íslenskra stjórnvalda en ekki á sínum heimavelli í New York.