149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, þ.e. aflandskrónulosun. Efni frumvarpsins er að eigendum aflandskróna verði heimilt að taka út fjármagn sitt af reikningum sem áður voru háðir sérstökum takmörkunum og jafnframt að kaupa fyrir þessar krónur erlendan gjaldeyri. Hér er, eins og segir í frumvarpinu, stigið eitt lokaskrefið til að afnema fjármagnshöft sem vörðu Ísland og íslenskt efnahagslíf á meðan það var að rísa á árunum eftir hrun. Sumir geta líklega spurt: Af hverju núna? Eins og komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum er það fullkomlega óljóst hvers vegna þessi tími er valinn til að koma með þessum rausnarlega hætti til móts við þessa aðila. Og fyrst ég nefni þetta, hvers vegna þessi tími hafi orðið fyrir valinu, vil ég nota tækifærið og spyrja af hverju verið sé að falla frá upphaflega markmiði stjórnvalda, nefnilega því markmiði að eigendum þessara aflandskrónueigna yrði gert að greiða ákveðið viðbótargjald í sameiginlegan sjóð okkar Íslendinga og bæta þannig með nokkrum hætti það tjón sem þjóðin varð fyrir í hruninu. Það var einnig ætlunin að eigendur þessara vogunarsjóða leystu eignir sínar út við óhagstæðara gengi. Þessum markmiðum hefur sýnilega verið varpað fyrir róða.

Frú forseti. Með þessu frumvarpi kemur fram vilji stjórnvalda um að við greiðum þessum eigendum — já, eigendum, og hverjir eru þeir? Veit það einhver? Nei, frú forseti, þeir eru andlitslausir, óþekktir og væntanlega auðjöfrar í alþjóðlegum samanburði. Þetta eru menn sem svífast einskis í sínu stórgróðabralli. Það sem meira er, þetta eru vogunarsjóðir í flokki hinna síðustu sem við erum að leysa út úr íslensku efnahagslífi og það með hárri ávöxtun. Þetta eru þeir sem ekkert hafa gefið eftir og hafa hangið lengst allra á roðinu, þeir óbilgjörnustu gagnvart þeim erfiðleikum sem Ísland átti við að stríða hér eftir hrun.

Af hverju þraut stjórnina örendið, frú forseti? Af hverju? Er það kannski vegna þess að við erum með fullar hendur fjár? Hvað segir það um aðgerðir, eða réttara sagt aðgerðaleysi, til að stöðva neyð þeirra sem minnst hafa milli handanna og þurfa að lifa af 240.000 kr. á mánuði? Það var ekki unnt að koma til móts við þá með því að hækka persónuafslátt nema með smánarlegum hætti, en þó þannig að það munar kannski einni pítsu á mánuði og e.t.v. brauðstöngum með.

Fyrst minnst er á Framkvæmdasjóð aldraðra þá höfum við horft upp á það sl. áratug að framlög sem réttilega á að veita til þess að byggja upp hjúkrunarheimili fyrir aldraða í þessu landi hafa verið veitt í allt aðra hluti en lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra mæla fyrir um. Dæmi um það er bráðabirgðaákvæði sem hefur verið framlengt ár eftir ár í meira en áratug og þannig veittir 11 milljarðar út úr þessum sjóði. Hvað erum við að ræða hér? 84 milljarða. Og hve stór hluti af þeim er eftirgjöf? Fáum við upplýsingar um það hve stór hluti það er? Ef það væru 10% væri kominn lunginn af því sem búið er að taka úr Framkvæmdasjóði aldraðra sl. tíu ár, en svona mikla fjármuna munar ekki um að greiða hrægammasjóðunum út, milljarða á milljarða ofan.

Uppgjöf er góð lýsing á þessu. Auðvitað er þetta ekkert annað en uppgjöf. Og hver eru skilaboðin til framtíðarinnar og þá sérstaklega til vogunarsjóða framtíðarinnar síðar meir? Skilaboðin eru einfaldlega þau að Ísland sé auðveld bráð. Hér sé hagstætt að koma inn, hrifsa verðmæti á slæmum tímum, á erfiðum tímum, hrifsa þau til sín á hrakvirði og leysa þau síðan út með mesta hugsanlega gróða. Vogunarsjóðirnir taka út gróða sinn með hæstu ávöxtun. Þessi gjörð sem við stöndum frammi fyrir er alger viðsnúningur gagnvart þessum sjóðum, viðsnúningur frá upphaflegu markmiðunum um að láta vogunarsjóðina greiða hærra verð fyrir gjaldeyrinn, nokkurs konar framlag til íslensks samfélags.

Frú forseti. Þeim markmiðum hefur verið kastað fyrir róða. Með þessari eftirgjöf erum við að verðlauna grimmustu vogunarsjóðina. Hér er um skipulagt undanhald að ræða. Alla jafna ætti mál af þessari stærðargráðu að vekja athygli hér á þingi. Stjórnarandstaðan ætti auðvitað að vera öll hérna uppi í pontu að spyrja þá spurninga, eðlilegra spurninga, sem lögðu fram þetta frumvarp. Og þeir ættu líka að vera hér og svara. En hver er raunin? Mér er mikil ánægja að tilkynna að hér í salnum er einn hv. þingmaður sem ekki er í Miðflokknum. (KÓP: Ekki enn þá.) Nei, sl. átta klukkutíma sem þetta mál hefur verið til umræðu hefur salurinn verið tómur af þingmönnum allra þessara sjö sósíalísku flokka sem hér virðast öllu ráða í landinu.

Þetta mál snýst um hagsmuni Íslands. Af hverju á ekki að gæta íslenskra hagsmuna? Milljarðar, jafnvel tugir milljarða, eru hér undir. Af því að ég fer stundum á fótboltaleik hjá mínu uppáhaldsliði, ÍBV, sem gefur aldrei tommu eftir, er kannski ekki úr vegi að lýsa þessu eins og íþróttum er stundum lýst. Við skulum ímynda okkur að við séum á fótbolta- eða íþróttakappleik eins og þetta er, sagan í þessu máli sl. tíu ár er svolítið lík því. Heimaliðið hefur staðið sig afskaplega vel undir forystu Sigmundar þjálfara. Okkar lið er yfir í hálfleik gegn liði hrægammanna, sem er erlent lið, skipað erlendum hörkutólum, sannarlega harðskeyttir og gefa ekkert eftir. Þeir hafa orð á sér fyrir að brjóta á andstæðingnum þegar dómarinn lítur undan, en þjálfari okkar liðs hefur séð við öllum þeirra brögðum og heimamenn gefa ekkert eftir, ekki tommu. Við fáum okkur popp og kók í hálfleik, eða kannski pylsu. Í síðari hálfleik er búið að skipta um þjálfara í okkar liði og bið verður á því að menn mæti inn á völlinn. Hvar eru okkar menn? spyrja áhorfendur. Þeir eru í búningsklefanum. Þeir eru búnir að gefast upp og þeir eru í búningsklefanum skjálfandi á beinunum. Þeir þora ekki inn á völlinn, þeir gefa leikinn. Hrægammarnir hirða bikarinn og hrósa sigri. Svona er þetta einhvern veginn ef við lýsum þessu sem íþróttakappleik.

Mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli. Hvað er eftirgjöfin mikil miðað við upphaflegar áætlanir? Hvers vegna núna? Hvers vegna liggur svona á þessu núna? Af hverju þessi viðsnúningur gagnvart vogunarsjóðunum, þetta undanhald? Af hverju? Af hverju er íslenskra hagsmuna ekki gætt betur? Og af hverju hafa stjórnmálamenn annarra flokka engan áhuga á þessu máli í dag? Við ræðum hér alvarlegt mál.