149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem vanur er — ég vona að þetta falli nú innan ramma forseta — að fást við rök og rökstuðning með og á móti málum, hvort hann telji að þingheimur, ef hægt er að tala um þingheim, þingflokkur Miðflokksins virðist vera eini þingflokkurinn sem hefur áhuga á þessu máli, hafi verið upplýstur með nógu góðum rökum um hvað í þessu máli felst í rauninni. Hefur rökstuðningur þeirra sem hafa viljað að málið gangi hér fram og fái samþykki komið nógu skýrt fram?

Það hafa verið haldnar tvær ræður af hálfu stjórnarliða eða þeirra sem bera málið uppi um málið, tvær ræður, líklega 7 og 15–20 mínútur, eitthvað svoleiðis, eitt andsvar frá einum öðrum stjórnarandstöðuþingmanni. Telur hv. þm. Karl Gauti Hjaltason að rökstuðningur fyrir því að samþykkja þetta mál hafi komið fram? Duga þær skýringar sem gefnar eru í nefndaráliti nefndarmanna til þess að skýra hvers vegna það liggur svona á að samþykkja málið? Er ástæða til þess, um leið í ljósi þess að svör hafa ekki fengist, að setjast betur yfir málið milli umræðna? Reyndar hefur komið fram ósk um að það verði fundað milli umræðna í efnahags- og viðskiptanefnd. Er ekki komin full ástæða til að við fáum rökstuðning fyrir þessu máli?