149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:36]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessar hugleiðingar og þessa spurningu, hvort samkomulag sé á milli flokkanna um að þetta renni hægt og hljótt í gegnum þingið. Ég veit auðvitað ekki neitt um það og þótt ég hafi verið í a.m.k. tveimur flokkum nú nýverið er ég ekki svo glöggur eða glöggskyggn að vita hvað fer fram á milli annarra stjórnmálaflokka. En það virðist vera eins og menn hafi ætlað sér að láta þetta renna í gegn án nokkurrar viðstöðu eða viðspyrnu eða spurninga, sem mér finnst furðulegt. Það þarf ekki einu sinni að kynna sér málin til þess að spyrja spurninga. Fræg var spurning barnsins sem benti á keisarann og var eini einstaklingurinn sem þorði að benda á hann þar sem hann var allsnakinn.