149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég verð nú aðeins að bera blak af hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé sem stendur hér og hefur hlustað á okkur um hríð, meira að segja viðrað það að skipta um flokk en það var nú líklega í gríni. (Gripið fram í.) Ég velti hins vegar því fyrir mér hvort formaður nefndarinnar, sem ekki hefur sést hér í marga klukkutíma, sé farinn heim eða sé að leggja sig einhvers staðar því að ekki virðist vera mikill áhugi á þessum umræðum sem hér hafa farið fram.

Frú forseti. Það hefur komið fram að við söknum þess að fá svör við fjölmörgum spurningum sem hér hafa verið settar fram. Við höfum líka saknað þess að þeir þingmenn sem ætla sér að samþykkja þetta þingmál eða bera það uppi komi hér og hreki þá þær ályktanir sem við höfum dregið af málinu og eigi við okkur umræðu um þetta stóra mál, því þetta er stórt mál. Það er í rauninni með ólíkindum að það skuli tveir stjórnarliðar vera búnir að taka til máls um þetta frá því að það kom inn í þingið. Annars vegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem flutti málið 22. janúar og svo hins vegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Maður veltir því fyrir sér hvort það sé áhugaleysi. Er það þannig að þessir ágætu stjórnarliðar sitji heima og horfi á nýja seríu af Bachelor-þáttunum eða piparsveininum eða hvað þetta heitir nú í stað þess að vera hér eða hvað er það sem gerir það að verkum að menn eru ekki hér í þingsal eða taka þátt í þessari umræðu?

Um er að ræða mikla hagsmuni, fjárhagslega hagsmuni, fyrir Ísland í máli sem, ekki bara í fyrsta sinn núna heldur í annað sinn, er verið að reyna að fara með í gegnum þingið undir því yfirskini að það liggi á, markaðurinn sé órólegur og ég veit ekki hvað og hvað. 14. desember varð þetta að gerast til að róa markaðinn. Ein af þeim spurningum sem hafa komið fram er hvernig markaðurinn hafi það síðan þetta gerðist, hvort hann hafi farið á taugum eða hvernig ástandið er. Í gær áttum við að klára þetta samkvæmt ósk Seðlabankans og mér vitanlega hafa ekki borist neinar fréttir á netinu um að eitthvað skelfilegt hafi gerst.

Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér í ræðum eða því velt upp réttara sagt hvernig undanhaldið í þessu máli hefur farið í raun stigvaxandi. Hvernig menn hafa bætt alltaf í, tekið nýjar rangar ákvarðanir, breytt skilmálum, farið í utanlandsferðir til að semja við kröfuhafa eða eigendur að þessum eignum í stað þess að vera rólegir, láta þá koma, vera rólegir eins og stefnan var í þessu plaggi um hvernig ætti að losa fjármagnshöftin. Þar var stefnan útlistuð staf fyrir staf, rökstudd með þeim hætti að eftir því var tekið og árangurinn að sjálfsögðu hefur vakið gríðarlega athygli. Eins og fram kom í ræðu minni fyrr í kvöld eða í dag var sífellt spurt um hvernig Ísland hefði farið að þessu, hvernig menn fóru að því að fara þessa leið, rauninni fram hjá öllu því sem fjármagnseigendurnir vildu og jafnvel því sem ákveðnar alþjóðastofnanir reyndu á sínum tíma kannski fá okkur til að gera. Við höfðum náttúrlega sýnt það nokkru áður með neyðarlögunum sem þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafði forgöngu um að koma í gegnum þingið og Vinstri græn held ég að hafi ekki getað stutt á þeim tíma, greiddu reyndar ekki atkvæði á móti því. Svo þegar Icesave-samningarnir og það allt stóð yfir og menn háðu mikla varnarbaráttu fyrir þjóðina í því sem hafðist vitanlega sigur í á endanum og allt gekk upp sem menn höfðu varað við. Síðan hvernig tókst að greiða úr þessari fjármálaflækju allri saman með þessari áætlun, aðgerð um losun fjármagnshafta. Þá var í rauninni mjög skemmtilegt að sitja ráðstefnur eða fundi og þurfa að svara í tíma og ótíma þessari spurningu: Hvernig í ósköpunum datt ykkur í hug að gera þetta?

Hér er það hins vegar ekki uppi á borðinu. Hér er kannski verið að reka endahnútinn á undanhaldið, ég veit það ekki. Ég átta mig ekki alveg á því af því að það hefur ekki orðið mikil umræða um það af hálfu þeirra sem vilja klára þetta mál og ekki komið fram útskýringar á því hvers vegna þetta þarf að gerast með þessum hætti, hvers vegna þessar ákvarðanir eru teknar, hvers vegna eftirgjöfin er svona mikil. Ég hugsa að það sé hægt að vera með býsna þéttritað blað í A4-stærð, og jafnvel fleiri en eitt blað, af spurningum sem hér hafa komið fram.

Þegar maður horfir á tímasetningarnar og fréttir og fréttatilkynningar frá Seðlabankanum þá er mjög áhugavert að sjá hvenær þetta undanhald í rauninni byrjar. 25. maí tilkynnir bankinn loks um útboð og það átti að fara fram í október 2015 eins og fram hefur komið. Man ég vel eftir því að mikið var þrýst á og það var mikið reynt að fá þetta gert fyrr en alls konar flækjur voru þar í vegi. Síðan gerist það að 30. maí fagnar Seðlabankinn mati matsfyrirtækisins Moody's o.s.frv. og 8. júní áréttar Seðlabankinn hvernig þetta á allt að ganga. Síðan er eins og eitthvað gerist, og ég verð að segja að því miður ber það upp á 9. júní, afmælisdaginn minn, þegar bankinn virðist fara að stökkva undan, hlaupa af stað frá þessu öllu saman. Þar áréttar bankinn hvernig útboðið fari fram og breytir skilmálum, lengir fresti og svo heldur þetta áfram. 13. júní er skilmálum aftur breytt, 14. júní er bankinn að reyna að útskýra, eins og ég sé þetta hér, að undanhaldið sé byrjað. Það er áhugavert í samhengi hlutanna að sjá hvenær þetta á sér stað allt saman. Það er líka áhugavert að sjá að það er einn og einn blaðamaður sem hefur fylgst með þessu, hefur haft af þessu áhyggjur og ritað um þetta greinar. Verð ég að leyfa mér að nefna það að svo virðist sem sá ágæti blaðamaður Hörður Ægisson hafi fylgst sérstaklega vel með þessu og skrifað margar fréttir þar sem einmitt er fjallað um mikilvægi þess að menn standi í lappirnar, mikilvægi þess að fylgja þessari áætlun eftir.

Gleymum því ekki að áætlunin er unnin mjög faglega, að sjálfsögðu. Það eru fengnir utanaðkomandi aðilar, erlendir ráðgjafar, til þess að hjálpa til eins og fram hefur komið hér, jafnvel án þess að þeir þiggi fyrir það nokkra þóknun. Að sjálfsögðu er það undir þeirri leiðbeiningu og þeirri forskrift að gengið skuli eins langt og mögulegt er lagalega gagnvart þessum aðilum og það verði ekki gefið eftir af réttmætum kröfum Íslands. Því er þessi stóra spurning alltaf hangandi yfir, sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason kom inn á: Hvað gerðist í rauninni? Hvers vegna fóru menn þessa leið?

Það er sjálfsagt eitthvað sem mun koma í ljós síðar en hér erum við hins vegar að taka þá ákvörðun, ef þetta mál klárast, hvenær sem það verður nú, að kannski ekki reka endahnútinn en í það minnsta að taka enn eitt skrefið í þessu undanhaldi. Það eru miklir fjármunir sem þarna eru í húfi, frú forseti, sem mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir. Hvort sem þetta eru nú 11 milljarðar eða 25 milljarðar eða hvað það er sem afslátturinn eða tapið af þessu verður þá eru 84 milljarðar undir og það er há upphæð, margt hægt að gera fyrir hana, mismuninn á útboðsgengi eða samningagenginu eða hvað við eigum að kalla þetta í dag, margt sem má gera fyrir þær upphæðir.