149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðuna. Ég veit ekki hvort hann nefndi það í ræðunni en ég heyrði hann í andsvari áðan tala um nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Þetta er einmitt það sem hefur komið fram í ræðum og ég nefndi áðan og er í mínum huga stórt spurningarmerki. Þetta hefði þurft að koma fram í ræðum, ef þingmenn annarra flokka hefðu getað komið hingað og upplýst okkur, þeir sem segja okkur jafnframt að við séum að steypa í þessu máli.

En mig vantar svar og mig langar til að velta því atriði upp við þingmanninn. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn til nefndarinnar undirstrikar Seðlabankinn mikilvægi þess að afgreiðsla frumvarpsins liggi fyrir áður en gjalddagi tiltekins flokks ríkisbréfa rennur upp 26. febrúar næstkomandi. Að öðrum kosti muni umfang aflandskrónueigna í lausu fé aukast um nær 70% eða sem nemur um 25 milljörðum kr. Í umsögninni segir: „Við það eykst hætta á að stórir aflandskrónueigendur, sem átt hafa sín bréf í samfelldu eignarhaldi frá því fyrir höft og taldir hafa verið líklegir til að endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum þegar þeirra bréf koma á gjalddaga þann 26. febrúar muni í stað þess leita út þegar þeir losna af bundnum reikningum. …““

Þetta stendur í nefndarálitinu og er í mínum huga eitthvað sem við eigum bara að kyngja en mig vantar að fá svör við því. Ég held að hv. þingmaður geti ekki svarað mér en er hann ekki sammála mér í því áhyggjuefni?