149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í kafla í nefndarálitinu sem hv. þingmaður nefnir er vitnað í umsögn Seðlabankans um frumvarpið. Í skýringum í frumvarpinu kemur fram að unnið hafi verið í samráði við Seðlabankann og forsætisráðuneytið. Hins vegar er hvergi í þeim skýringum að finna einhver varnaðarorð.

Ég velti fyrir mér í ljósi fyrirspurnar hv. þingmanns hvort athugasemdir Seðlabankans hafi ekki komið fram við gerð frumvarpsins, þ.e. hvort menn hafi ekki haft þær áhyggjur á sínum tíma en síðan sett þær á blað þegar ljóst var 14. desember að málið yrði ekki klárað og tekið fyrir síðar. Það er vel þekkt að menn reyni ýmislegt til að klára mál.

Þetta er eitt af því sem við höfum kallað eftir svörum við, hvað í rauninni felist í athugasemd eða yfirlýsingu eða ritum Seðlabankans í málinu. Af hverju er þessi hætta fyrir hendi? Hvers vegna áætla menn að hún sé til staðar?

Svo er annað sem við getum velt fyrir okkur. Þarna er talað um 25 milljarða, sem er há tala en við erum líka að tala um býsna háar tölur þegar við veltum fyrir okkur þeim afslætti eða eftirgjöf sem gefin verður í dag ef málið nær fram að ganga. Mér finnst vanta rökstuðning fyrir málinu, enda hefur verið kallað eftir honum í allt kvöld.