149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nei, varnaðarorðin virðast ekki hafa náð eyrum þeirra sem voru farnir að véla um þau mál eftir apríl eða maí 2016. Svo virðist sem sú stefnubreyting hafi orðið þá strax um sumarið að ekki skyldi haldið til streitu þeirri áætlun sem hafði verið samþykkt. Fjölmiðlamenn, þar á meðal nefndur fjölmiðlamaður, vöruðu við því í skrifum sínum að vikið yrði frá þeirri stefnu vegna þess að það væri í rauninni ástæðulaust, allt væri rétt gert og allt væri með Íslandi, íslenskum stjórnvöldum, í málinu. Því hefði það í sjálfu sér ekki þjónað neinum tilgangi að vera að gleðja krónueigendur eða aflandskrónueigendur, hvað við köllum þá, með því að semja sérstaklega við þá eða veita einhverja fyrirgreiðslu.