149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nei, ég man ekki eftir því að svo stórt mál þar sem slíkir hagsmunir eru undir hafi fengið jafn litla umræðu. Auðvitað getur verið að ég sé að gleyma einhverju, það er svo sem ekkert nýtt. Ég held hins vegar að ef við setjum þetta í sögulegt samhengi við málið sjálft, þ.e. fjármagnshöftin og það allt saman, sé alveg klárt mál að það voru miklu meiri umræður og áhugi á málinu hér fyrr. Haldnar voru miklar og langar ræður, meira að segja þegar komið var fram með áætlun um losun fjármagnshaftanna. Það var ekki aldeilis þannig að allir væru beinlínis sáttir og þurfti að ræða mikið, sem er eðlilegt því að málið var vitanlega risastórt.

Það sem er hér um að ræða er að við höfum ekki fengið nein svör við spurningunum sem settar hafa verið fram, þar á meðal hvernig menn réttlæta það að fórna eða gefa eftir, eða hvað við köllum það, þá miklu hagsmuni sem hv. þingmaður nefnir, 13,6–23 milljarða, í ljósi þess að í frumvarpinu kemur fram að áhyggjur Seðlabankans eru 25 milljarðar sem geta mögulega haft áhrif til skaða, eins og bankinn leggur þetta fram. Það er mjög svipuð upphæð og menn eru kannski að gefa eftir.

Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki hefði verið betur heima setið en af stað farið með þetta mál. En við fáum ekki svör. Við fáum engin svör við því hvers vegna er verið að hamast á málinu, ekki síst í ljósi þess að 14. desember lá mjög á að klára það. Ég hugsa að ef málið hefði farið í gegn hefði klárlega verið sett Íslandsmet í hraða, miðað við stærð og umfang máls, ef ekki bara Ólympíumet.