149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir því sem á hefur liðið í dag og þögn stjórnarflokkanna, þingmanna stjórnarflokkanna verður meira og meira æpandi hefur hvarflað að mér að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki sett málið í samhengi, ekki áttað sig á hagsmununum. Miðað við ræðurnar sem þeir hafa haldið í tengslum við miklu minni hagsmunamál fjárhagslega held ég að það sé eina lógíska skýringin á því að enginn setji sig inn í þetta mál eða hafi skoðun á því, að menn hafi hreinlega ekki áttað sig á því.

Ég velti fyrir mér hvert mat hv. þingmanns er á því hvernig málið hefur verið hanterað, hvort sú staða geti hreinlega verið uppi að menn átti sig ekki á því hvaða hagsmuni er verið að gefa eftir. Aldrei mun ég stökkva á þann vagn (Forseti hringir.) samfylkingarflokkanna að telja Alþingi vera að gefa eftir eign sína (Forseti hringir.) þegar menn skattleggja allt í drep, eins og samfylkingarflokkarnir tjá sig um, en hérna er raunverulega verið að gefa eftir hagsmuni (Forseti hringir.) sem var búið að stilla upp með hvaða hætti yrðu sóttir (Forseti hringir.) samkvæmt planinu frá 2015.