149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er nefnilega skynsamlegt að setja hlutina í samhengi þegar við ræðum um slíka hagsmuni og fjármuni, ekki síst þegar þeir hlaupa trúlega á milljörðum og jafnvel milljarðatugum. Þá er ágætt að gera sér grein fyrir því hverju menn eru að fórna í rauninni. Það er líka ágætt að hafa það í huga þegar þingmenn hinna svokölluðu samfylkingarflokka eða vinstri flokka koma upp og halda lærðar ræður um aukna skattheimtu, að þeir ákváðu að færa vogunarsjóðunum eða krónueigendum milljarða á silfurfati.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við séum einhverju nær um forsendurnar sem hér liggja að baki eftir umræðuna sem hefur staðið núna um skeið. Það er svo sem ekki öll nótt úti enn, ekkert vonlaust að einhver stjórnarliði komi hér og útskýri málið fyrir okkur þó að það séu kannski ekki miklar líkur á því. Þá velti ég því fyrir mér hvort að þingmaðurinn sé þeirrar skoðunar að við höfum ekki fengið þau svör sem við þurfum á að halda til þess að fá botn í það hvers vegna er verið að fara með þetta mál með þessum hætti í gegn. Í öðru lagi velti ég fyrir mér hvort það sé eðlilegt að fá ekki rökstuðning fyrir því sem þingmaðurinn kom inn á, þessum miklu fjárhagslegu hagsmunum sem verið er að fórna. Það hefur ekki verið færður rökstuðningur fyrir því hvers vegna þessi leið er farin og gefnir eftir þessar miklu fjármunir sem mögulegt væri að ná ef menn hefðu haldið sig við planið. Það er vitanlega útúrsnúningur að segja að það sé enn verið að fylgja þeirri áætlun sem lagt var af stað með með þessu plani öllu saman þegar búið er að semja frá sér ákveðna hluti af þessu.