149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:20]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er nefnilega mjög mikilvægt að setja hlutina í samhengi og það er mjög mikilvægt að velta því fyrir sér hverju er verið að fórna. Fjármálaráðherra hefur snúist á punktinum. Það er hægt að halda því fram. Það er svolítið sérstakt vegna þess að á sama tíma verður honum mjög tíðrætt um svigrúm, það sé bara ákveðið svigrúm til staðar þannig að það sé alls ekki hægt að bregðast við öllu því sem fólk fer fram á.

Eftir umræður dagsins þá erum við litlu nær. Mér skilst að stjórnarliðarnir tveir sem hafa talað í málinu hafi talað samtals í 13 mínútur. Núna er kl. 23 mínútur yfir 12 á miðnætti og ég á nú frekar von á því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óli Björn Kárason, þó ekki væri nema hann, komi síðar í umræðunni og gefi okkur þá kannski einhver svör um hvað það er sem liggur til grundvallar. Mér heyrist á umræðunni í dag og í kvöld að það sé ekki mikið að græða á greinargerð og enn síður á nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar þannig að við erum litlu nær.