149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikils virði að fá yfirlit yfir alla þessa sögu eins og við erum búin að fá í þremur ræðum hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. En þrátt fyrir að ræður hans allar hafi verið mjög skýrar og skorinorðar og vel fram settar þá viðurkenni ég að mér er enn ekki ljóst hvað rak menn til þess að gera þetta í einu vetfangi, vegna þess að þeir fengu ekki tilboð á 190 kr. á átta vikna tímabili eða einhverju slíku, og að menn skyldu fara svo gjörsamlega á taugum að bjóða út 100 milljarða kr. á rúmlega 135 kr. evruna, eða reyndar 137,5 kr. svo ég sé sanngjarn. Það er himinn og haf á milli þess að láta út 100 milljarða á því verði eða þessum 190 kr. sem menn voru búnir að segjast ætla að hengja sig í. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvað varð til þess að menn allt í einu missa svona gjörsamlega fótanna í því sem þeir eru að gera? Þetta eru eins og hræðsluviðbrögð, reyndar ekki þau fyrstu sem maður hefur séð hjá Seðlabankanum, samanber þegar hann hækkaði stýrivexti 2015 í undanfara kjarasamninga og var næstum því búinn að steypa þeim vegna þess að menn voru búnir að gefa sér þá hugmynd að hér yrði bullandi verðbólga eftir þá samninga, sem varð alls ekki eins og allir muna.

Þess vegna segir maður: Ætli það sé svo að Seðlabankinn sé bara að fara á taugum af minnsta tilefni? Í sjálfu sér hefur seðlabankastjóri komið fram eins og kötturinn Golíat eftir að hafa drukkið fulla skál af rjóma og sagt: Við erum tilbúnir í allt og getum alveg losað (Forseti hringir.) svo og svo mikið af peningum. Þannig að mér dettur í hug: Er Seðlabankinn að fara á taugum?