149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það virðist eiginlega blasa við þegar þessi saga er skoðuð, þó ekki út frá öðru en tilkynningum Seðlabankans sjálfs, að þetta hafi verið einhvers konar keðjuverkandi undanhald. Menn hafi byrjað á því að gefa eftir og þá hafi eigendur aflandskróna, eins fylgnir sér og þeir eru í sinni hagsmunagæslu, fljótt áttað sig á því að það væri hægt að ná eftirgjöf. Þá hafi viðbrögð Seðlabankans og stjórnvalda, því að stjórnvöld og ríkisstjórnin á þeim tíma og núverandi ríkisstjórn síðar höfðu átt aðkomu að þessu, verið þau að reyna meira af því sama; að gefa aðeins meira eftir. Og hvaða afleiðingar hafði það? Jú, það var bara áminning um að ágangurinn af hálfu kröfuhafa, aflandskrónueigenda og liðsmanna þeirra, virkaði. Hver voru þá næstu viðbrögð stjórnvalda? Voru þau að átta sig á því að þetta væri kannski ekki vænlegasta leiðin, nú ætti að segja hingað og ekki lengra? Nei, þau prófa einu sinni enn að gefa aðeins meira eftir. Svona gengur þetta koll af kolli og á engum tímapunkti virðast stjórnvöld átta sig á því hvað þau eru að gera með þessu. Þau eru að viðhalda og styrkja, ýta undir þá sannfæringu aflandskrónueigenda að þeir geti náð lengra. Alveg þangað til við erum komin á þennan stað sem við erum á núna, að kóróna þetta með fullkominni eftirgjöf, einhliða afléttingu hafta á það sem eftir stendur.