149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ef til vill hefði komið að gagni að leita til sálfræðinga, fólks með menntun á sálfræðisviðinu, til þess að meta hvort þetta væri rétta leiðin, að gefa alltaf smátt og smátt meira og meira eftir og hvort það væri líklegt til að eigendur aflandskróna myndu á einhverjum tímapunkti segja: Nú er ég bara sáttur. Ég held að það hefði verið hægt að útskýra fyrir stjórnvöldum hversu röng sú sálfræðilega nálgun þeirra var. Þetta er stundum kallað að fóðra krókódílana og ímynda sér að ef menn gefi þeim aðeins meira kjöt þá verði þeir sáttir og til friðs, þegar raunin er auðvitað sú að með því er verið að viðhalda ágengninni, í þessu tilfelli viðhalda sífellt (Forseti hringir.) auknum kröfum aflandskrónueigendanna.