149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú erum við komin á þann stað í þessu öllu saman að við erum búin að kalla eftir upplýsingum frá stjórnarliðum, eða ekki bara stjórnarliðum, heldur frá ríkisstjórnarflokkunum og vinstri flokkunum í stjórnarandstöðu, um hvers vegna menn vilji endilega samþykkja þetta mál og leggja svona mikla áherslu á það. Nú hefur hins vegar líka komið fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem okkur er sagt að þetta mál verði að klárast því að það liggi svo mikið á, markaðir verði órólegir o.s.frv. Það gerðist hér í desember. Því er freistandi að áætla að ekki sé búið að skýra allt út fyrir okkur hvers vegna fara þurfi með málið svona hratt í gegn núna fyrst að ekki þurfti lífsnauðsynlega að klára það 14. desember.

Maður veltir líka fyrir sér hvort þetta sé eins og við sáum í umræðu hér fyrir nokkrum árum þegar verið var að ræða Icesave-samningana eða eitthvað slíkt, þá voru haldnir kvöldfundir og næturfundir og reynt að keyra málið í gegn, reynt að gera það að verkum að menn gæfust upp í umræðunni. Ég velti fyrir mér hvort eitthvað sé þarna sem ekki sé búið að upplýsa okkur alveg um enn þá, að þarna séu einhvers konar samningar, mögulega baksamningar, sem búið sé að gera við þessa eigendur sem muni svo hrökkva í gang þegar búið er að samþykkja þetta mál. Það er full ástæða til þess að velta því fyrir sér og óttast það að fenginni reynslu. Annað eins hefur nú verið sagt í þessum stól um hvort menn hafi verið að semja eða ekki semja um meira að segja stærri mál en þetta, sem reyndist svo ekki alveg vera samkvæmt bókinni.

Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé kominn tími til að við fáum svör við þeim spurningum sem við höfum lagt fram, í það minnsta að við fáum (Forseti hringir.) einhverja vitneskju um hvers vegna í ósköpunum öðrum stjórnmálaflokkum — ja, öllum nema Miðflokknum, finnist svona mikilvægt að klára þetta mál.