149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[00:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að eitt og annað í þessu minnir mig á þá tíma og þá slagi. Það er kannski ekki að ástæðulausu að nokkrir ræðumenn í dag hafa sett þetta í samhengi, því að maður verður vissulega var við ýmis gömul einkenni úr þeim slag; hluti eins og það að telja að ekki sé hægt að standa of fast á rétti sínum, að menn verði aðeins að gefa eftir til að kaupa sér einhvers konar góðvild hjá einhverju óskilgreindu fyrirbæri sem stundum er kallað alþjóðafjármálakerfið. Í átökunum um Icesave var ekki bara varpað fram heldur beinlínis haldið fram þeirri kenningu að við myndum njóta aukinnar virðingar og betri kjara ef við gæfum rétt okkar eftir. Auðvitað mátti öllum vera ljóst að það væri algjör firra. Menn njóta að sjálfsögðu virðingar á mörkuðum ef þeir standa á sínu og fylgja lögum og reglum. Það er ekki til þess fallið að fá menn til þess að fjárfesta t.d. á Íslandi, hvorki þá né nú, að vera með sérstaka undanlátssemi og ímynda sér að í verðlaunaskyni muni menn fjárfesta á Íslandi, svona eins og til þess að þakka fyrir undanlátssemina. Það er mikill mislestur á því hvernig menn taka ákvarðanir í þessu alþjóðlega fjármálakerfi. Þar snýst þetta fyrst og fremst um það hversu langt menn komast við að hámarka ávinning sinn. Menn ráðast ekki í fjárfestingar á þeim forsendum að þeir séu að þakka fyrir að látið hafi verið undan þeim með óbilgjarnar kröfur.