149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Líkingin við sjómennskuna er svolítið skemmtileg að því leytinu til að hún byggir að sjálfsögðu á því að menn noti bestu upplýsingar þegar þeir taka ákvarðanir um hvort haldið skuli af stað eða bíða af sér veður eða litla von um afla.

Ástæðan fyrir að ég fer í þessa samlíkingu er í rauninni sú staða sem við erum í, við höfum ekki að mínu viti þær upplýsingar sem við viljum gjarnan hafa fyrir framan okkur til að geta í rauninni metið það hvort við eigum að samþykkja þetta mál eða vera á móti því eða sitja hjá eða hvað menn gera á endanum. Því hefur ekki verið svarað, enda hefur verið talað hér í 13, 14 mínútur, nefndi einhver, af hálfu þeirra sem bera málið uppi. Eftir stendur að við erum litlu nær, virðulegur forseti.

Því spyr ég hv. þingmann hvort það sé ekki bara eðlilegt að halda áfram og bíða og gá hvort (Forseti hringir.) við fáum ekki svör við þeim spurningum sem við höfum spurt.