149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni kærlega fyrir ræðuna sem hann flutti hér áðan. Það er til fólk, bæði innan húss og utan, sem lítur á umræðuna sem fram hefur farið hér í dag og í kvöld sem málþóf. Það kemur mér algjörlega í opna skjöldu vegna þess að við erum hér að varpa ljósi á það að við tökum ekki mál sem varðar alla þjóðina miklu, og varðar 84 milljarða, og köstum því í gegnum þingið á þremur tímum og korteri. Við gerum það ekki. Við ræðum þessi mál og við ræðum okkur að niðurstöðu og reynum að skilja af hverju málið er komið fram eins og það hefur borið að núna.

Mig langar því til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé jafn mikið í myrkri og ég um það hverju það sæti að flokkar sem kenna sig við alþýðu og samstöðu með öllum og jöfnuð treysti sér til að leggja fram frumvarp sem er ætlast til að komið sé í gegnum Alþingi á þrem tímum og korteri, og taki í raun og veru hagsmuni vogunarsjóða fram fyrir hagsmuni almennings.

Ég spyr líka vegna þess að þeir peningar sem hér er um að ræða, og við teljum að upp á vanti í þessa jöfnu, gætu sem best komið að gagni þeim sem höllustum fæti standa, sem sömu flokkar telja sig og segjast vera að berjast fyrir. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Skilur hann jafn lítið í þessu og ég, þ.e. að fólk sem kennir sig við félagshyggju, jafnrétti og baráttu fyrir hinum bágstöddu skuli treysta sér til að koma hingað með mál jafn stórt og þetta og ætlast til þess að við afgreiðum það á þrem tímum og korteri?