149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:19]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þetta andsvar. Nei, ég lít ekki svo á að við séum í málþófi vegna þess að oftast er talað um að málþóf sé þegar flokkar eru að reyna að ná sér í samningsstöðu. (Gripið fram í: Sagðirðu það ekki áðan?) Nei, við erum ekki að tefja málið, okkur vantar upplýsingar um það um hvað málið fjallar, af hverju þetta er ekki betur útskýrt. (ÓBK: Lestu greinargerð.) (Gripið fram í.) Það er að koma svefngalsi í einhverja sem eru að mæta hér núna og kannski setja þeir sig á mælendaskrá og geta útskýrt þetta fyrir okkur. Mér finnst ekki tilefni til þess að hlæja hjákátlega yfir þessum vangaveltum okkar, þetta er grafalvarlegt mál. Ég verð bara að jánka því að ég er í jafn miklu myrkri og hv. fyrirspyrjandi um það af hverju menn búa ekki betur um hnútana en staðreynd er í þessu máli svo að það liggi ljósar fyrir að þeir hafi tekið þátt í umræðunni. Þingmaðurinn nefnir félagshyggjuflokka og flokka alþýðunnar. Það er mér hulin ráðgáta af hverju þeir taka ekki meiri þátt í þessari umræðu.