149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er áhugavert að heyra upprifjun þingmannsins á viðtali eða skrifum í Financial Times, held ég hann hafi sagt, hann leiðréttir mig þá með það, varðandi það að ákveðnir stjórnmálamenn, í þessu tilfelli fyrrverandi forsætisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi verið til trafala þegar þessir vogunarsjóðir og fjármagnseigendur vildu ná í sitt fé.

Ég kannast hins vegar alveg við það að hafa verið spurður af fulltrúum þessara aðila, og væntanlega hafa margir þingmenn lent í því, hvernig stæði á þessari þvermóðsku, hvernig stæði á því að menn vildu ekki semja, vildu ekki klára málið og spurt var hvað þyrfti til, hvort hugmyndir þeirra væru einskis nýtar o.s.frv. Allt snerist þetta náttúrlega bara um, og snýst að sjálfsögðu enn um, að verja íslenska hagsmuni.

Hv. þingmaður nefnir hér áhrif á gengi krónunnar nái frumvarpið fram að ganga. Það er áhugavert að ekki er gerð tilraun til að taka á því máli, hvorki í nefndarálitinu né í frumvarpinu, ef ég man rétt. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé full ástæða til að fá það mat áður en málið er klárað, fá mat á því hvaða afleiðingar eða áhrif — það er kannski óþarfi að nota orðið afleiðing — þetta getur haft á gengi krónunnar og þá að sjálfsögðu á þær fyrirætlanir sem eru í fjármálaáætlun sem gildir í dag og munu væntanlega birtast í nýrri fjármálaáætlun á næstu dögum.